Hvað er ásetningur?

Hvað er ásetningur?

Þar sem ég nota ásetning mikið í mínu lífi og list er ekki úr vegi að fara aðeins yfir merkingu ásetnings. Ég nota ásetning til að hafa áhrif á líf mitt og í raun vera skapari eigin lífs. Ég nota listsköpun og hugleiðslu sem farveg fyrir þá sköpun. Fyrir mér er merkingin djúp og töfrandi. Á ensku er heitið intention. Merking ásetnings á íslensku er í raun ætlun eða áform,  að einsetja sér eitthvað. Hvaða áform hefurðu? Hvað einsetur þú þér? Hvað ætlar þú þér?  Að hugsa um ásetning varðandi ólíka þætti í lífinu er að móta einhverja hugmynd um hvað við þráum og  viljum í lífinu.  Að setja niður ásetning  er að setja orku, tilfinningu og einbeitingu á einhverja útkomu svo dæmi sé tekið. Ásetningur getur verið allt frá því að einsetja sér hvernig maður vill hafa daginn sinn yfir í stóra þætti í lífinu eins og árangur í starfi, samskipti við annað fólk og sambönd. Það gæti verið ásetningur minn til langs tíma að eiga í hreinskiptnum samskiptum við aðra og að standa með sjálfri mér. Það gæti líka verið ásetningur minn að ná ákveðið langt í starfi eða bæta samskipti mín við einhvern nákominn eða auka gleði í lífi  mínu.

Í rauninni verður allt til vegna ásetnings. Húsið sem þú býrð í, fötin sem þú gengur í og svo framvegis. Ásetningur er kraftur sköpunar. Honum hefur verið lýst sem innri hvata sem beinist í ákveðna átt og að hann innihaldi fræ þess sem þú leitast eftir að fá að skapa. Það er  svo hollt að spyrja sig stundum að því "hvað vil ég" ... "hvað þrái ég" ..."hvar vil ég vera eftir eitt ár..þrjú ár osfrv."? Of oft erum við að einblína á það sem við viljum ekki og velta okkur endalaust upp úr því. "Ég nenni ekki að vera í þessari vinnu"  eða "mig langar ekki að búa í þessari íbúð" eða  "þetta samband er ekki það sem ég vil". Að sama skapi gleymum við að sjá fyrir okkur og skapa pláss í huganum fyrir hvað við viljum í staðinn.

Hvernig eigum við að geta skapað okkur líf sem er mikils virði fyrir okkur og lífsfyllingu ef við vitum ekki hvað við viljum í staðinn? Ef við eigum einungis mynd af því í huganum hvað við viljum ekki en ekki hvað við viljum, hvernig eigum við  þá að geta breytt því sem er ekki að þjóna okkur? Að hugsa um það færir okkur nær því sem við viljum, hjálpar okkur að gefa því gaum og þannig búa til pláss fyrir það í lífi okkar. Þannig getum við sett niður ásetning. 

Heyrir þú hvað hjarta þitt kallar á?

Fyrir ljóðræna  hlutanum af mér er ásetningur ákall sálarinnar eða hjartans. Það er fátt eins mikilvægt í lífinu og að vera tengd sjálfinu innra með okkur, hjartanu, innsæinu, okkar dýpstu visku, vilja og þrá. Með ásetningi sáum við fræi og fræið inniheldur allt sem getur mögulega orðið.  Það er svo okkar að vökvað fræið og skapa jarðveginn  fyrir fræið til að vaxa og blómstra. Hver veit þá hvað við getum uppskorið? Ásetningur fyrir mér er því meira eins og heit heldur en markmið.

Við höfum öll heyrt setninguna  "allt sem þú veitir athygli vex". Listin er að lifa með þetta í huga. Það sem við erum upptekin af hverju sinni er það sem við sjáum í kringum okkur. Ég tek stundum  einfalt dæmi af  þeirri ætlun að kaupa stærri bíl fyrir fjölskylduna. Segjum að ég sé búin að ákveða hvaða tegund. Allt í einu er sú  tegund það eina sem ég sé þegar ég er  að athafna mig um borg og bý. Allt í einu sé ég þessa tegund bíla alls staðar. Heilinn sigtar út fyrir mig allt  annað.  Ég  er  búin að segja heilanum hvað ég ætla  að einblína  á og hann hjálpar  mér að sigta annað út. Mörg pör sem hafa  tekið ákvörðunum  að eignast barn saman eða manneskjur sem eiga von á barni fara að sjá óléttar konur út um allt. Athygli okkar fer á það sem við erum upptekin af. Þess vegna  er svo mikilvægt að vera ekki einingis  upptekin af  því sem illa gengur  í lífinu okkar heldur beina sjónum að því sem við viljum í staðinn. Þetta er eitt af því sem þú ert  að þjálfa þig í þegar þú stundar hugleiðslu svo dæmi sé tekið.  Hvert  þú setur athyglina. Þú lærir  að leiða hugan í ákveðna átt eins og að andardrættinum. 

Þegar þú hefur  mótað ásetning  þinn er síðan gott  að hvíla í þeirri vissu að þú hafir sáð fræjunum og  heimsækja ásetninginn  stutta stund annað slagið og  byrja að  taka  skref í áttina að því sem þú þráir. Það geta  verið lítil  skref eða  stór, þú veist  hvert þú stefnir. 

Opnun á möguleika

Kraftur ásetnings felst í að opna á möguleika. Að opna fyrir að alls konar sé mögulegt. Ef ég skilgreini mig og ákveð að ég sé bara  alls ekki listræn manneskja þá er ég að loka á möguleika en ekki opna.  Veit ávaxtafræ til  dæmis að það getur orðið blóm eða  ávaxtatré? Veit akarnið  að það getur orðið að eikartré? Eina manneskjan sem stendur  í vegi fyrir mér er  yfirleitt ég sjálf! Óttinn  minn, takmarkanir míns eigin huga. Allt sem ég veiti  athygli og  hlúi  að vex  og  dafnar. 

Listsköpun með ásetningi

Shiloh Sophia hefur  mótað þetta hugtak Listsköpun með ásetningi/intentional creativity. Það þýðir einfaldlega að nota listsköpun til að setja niður ásetning og komast  nær þinni innri visku. Þú notar LMÁ til þess að auðga andann og vaxa sem persóna. Gengið er út frá því að allt sem við  þurfum búi innra með okkur. Að við höfum innri visku, innsæi sem veit öll svörin. Að okkar eigin viska geti leitt okkur áfram að andlegu og líkamlegu heilbrigði, að lífsfyllingu og hamingju. Að við vitum djúpt innra með okkur hvað það er sem likami, hugur og andi  þarfnast.

Yfirleitt  lítur listsköpun með ásetningi þannig út að þú skrifar niður ásetninginn til dæmis á blað eða striga (gjarnan eftir hugleiðslu) og svo  málar þú út frá innsæinu yfir hinn skrifaða ásetning. Dæmi um slíkt sköpunarferli er að hugsa um eitthvað sem þú stefnir  á að öðlast í lífinu. Sem dæmi gæti þig langað að öðlast meiri styrk í erfiðum aðstæðum eða þú ættir  ákveðinn draum sem þú vildir að gæti ræst.  Þú værir  einfaldega að myndgera ásetninginn  en ekki bara skrifa hann niður.

LMÁ er hinsvegar líka hægt að nota til að komast nær eigin innsæi. Að heyra betur í innri viskunni (fá aðgengi að fleiri skrám í heilanum). Segjum að þú værir í vafa um hvaða leið þú ættir að fara í einhverjum aðstæðum. Þú myndir þá nota LMÁ til að tengjast þér og  hjálpa þér að finna svörin með sköpuninni.

Listsköpun með ásetningi er frábær miðill til  að rækta sjálfið og  tengjast innsæinu.  
-Kristín Berta
Intentional creativity er leið til að komast í samband við sjálfa sig og skilja tungumál hjartans.
~ Shiloh Sophia
Intentional Creativity snýst um að skapa tengingu við innri rödd þína og visku. Að hlusta og skapa, spyrja og leita frá þessum stað innra með þér sem þekkir þínar dýpstu vonir og drauma.
~ Denise Daffara

Þegar við sköpum með ásetningi fáum við greiðari aðgang að eigin visku og förum að skilja hvernig við getum nýtt okkur hana. Við lærum að hlusta á innri rödd okkar, innsæið. Sköpun með ásetningi er aðferð til að skilja betur hver við erum og hver við viljum verða. 

Það þarf enga reynslu af listsköpun til að geta málað og skapað með þessum hætti. Með þessari aðferð erum við stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt eða enduruppgötva það sem við höfum gleymt. Það eina sem þarf er viljinn til að taka á móti upplýsingum frá sjálfum okkur í gegnum sköpun. Sleppa tökunum og fagna lífinu!

Kveiktu á sköpunarkraftinum  og leggðu við hlustir.

Með kærri  kveðju

Kristín Berta Guðnadóttir

Aftur á bloggið