Frá því að ég man eftir mér hef ég elskað að mála. Það er mín hugleiðsla að sjá liti renna saman á blaði eða leka í taumum niður eftir striga. Ég hef fengið að kynnast því hvernig litir og penslar, blýantur og blað, glimmer og lím getur hjálpað í gegnum erfið tímabil og haft heilandi áhrif á sálartetrið.
Innri gagnrýnandinn
Sem unglingur og barn var ég alltaf að skapa eitthvað. Teikna, mála og skrifa ljóð eða texta. Ég átti alls konar litlar dagbækur sem ég skrifaði og teiknaði í. Ef ég fór í ferðalag tók ég alltaf með mér vatnsliti og blöð. Þegar ég varð eldri fór ég að mála með olíu á striga og ég seldi stundum verkin mín og mörgum líkaði þau. Frá því að ég var barn hafði ég alltaf ætlað að verða listarkona. Ég sótti um í myndlistarskóla þegar ég hafði aldur til en komst ekki inn sem voru mikil vonbrigði fyrir unga konu. Ég ætlaði alltaf að reyna aftur og þá kannski erlendis.
Ég kynntist snemma mínum yndislegum eiginmanni og stofnaði mína eigin fjölskyldu. Athyglin fór eins og gefur að skilja á börnin og það voru yndisleg ár. Draumar um myndlistaskóla á erlendri grundu viku fyrir öðrum plönum um háskólamenntun í félagsráðgjöf, íbúðarkaup og allt það sem fylgir fjölskyldulífi með lítil börn. En eftir á að hyggja fór ég líka að hlusta meira og meira á þessa rödd innra með mér sem sagði einhverstaðar djúpt í fylgsnum hugans “hver ert þú að mála eitthvað?”….eða “hvað þykist þú kunna?” ... “þetta er alls ekki nógu gott hjá þér og þú hefur ekki það sem til þarf”. Ég fór þó reglulega á myndlista námskeið en mér leiddist óskaplega að læra að teikna og mála í réttum hlutföllum. Það var eins og ég væri að þykjast finnast það gaman. Eins og mér ætti að finnast það gaman af því að mig langaði að vera myndlistakona. Mér leiddist líka að mála eftir pöntunum, leiddist að mála það sem ég hélt að fólki líkaði og þessi innri rödd sem ég í dag kalla innri gagnrýnandann varð sífellt háværari.
Uppgjöf
Ég hætti smám saman að mála og fór að einbeita mér að öðru. Alltaf var ég samt eitthvað að bardúsa. Hvort sem það var einhver handavinna eða búa til skartgripi. Ég kláraði námið í félagsráðgjöf og einbeitti mér að mínum störfum á því sviði og það gaf mér mikið og ég lærði margt. Það er líka mjög skapandi að vinna með fólki og hjálpa því að skapa sér nýja lífssögu. Ég bætti við mig námi í fjölskyldumeðferð og fór á ýmis námskeið tengd meðferðarvinnu. Mér fannst samt oft eins og eitthvað vantaði. Einhvern part af mér en ég vissi ekki hvað það var. Ég gleymdi.
Áföll
Lífið er nú stundum þannig að þegar það hrisstir upp í okkur þá munum við hver við erum. Við vöknum og förum að hugsa um hvar við erum stödd í lífinu. Í mínu tilfelli kom slíkur skellur inn í mitt líf þegar báðar systur mínar sem jafnframt voru mínar nánustu vinkonur í þessu lífi veiktust alvarlega með árs millibili. Elsta systir mín lést svo árið 2017 aðeins 45 ára. Miðjusystir okkar átti í sinni baráttu í ein sjö ár þar til hún lést líka vorið 2021 rétt áður en hún hefði orðið 47 ára. Á þessum árum sem veikindi og dauði vomuðu yfir lífi fjölskyldunnar hef ég þurft að taka á öllu mínu til að trúa á lífið aftur. Ég þurfti að stokka upp í trú minni og tilgangi með lífinu. Ég þurfti fleiri verkfæri til að fylla mig krafti svo ég kæmist í gegnum þetta.
.
Með pensilinn í hárinu
Einn daginn eftir að systur mínar voru báðar búnar að fá sína krabbameins greiningu var ég að taka til í herbergi sem hafði átt að vera vinnuherbergi fyrir mig þegar við fyrst byggðum húsið okkar. Gallinn var sá að ég málaði aldrei lengur. Herbergið var bara geymsla. Eitthvað kallaði mig þangað inn og ég fór að taka til þar. Ég fann gamlar möppur með teikningum frá mér. Teikningum af alls konar hlutum. Þær sem ég hafði alveg gleymt voru teikningar þar sem ég var bara að “dunda” mér eins og það er kallað. Teikningar sem voru ótrúlega einfaldar og gerðar á alls konar bréfsnifsi. Þá mundi ég aftur hvað það var róandi að sitja með liti og blað og mála bara eitthvað út frá innsæinu. Engin krafa um að sýna öðrum, engin krafa um hvort myndin væri “nógu góð” í augum annarra. Ég fann hvað ég saknaði þess að skapa á þennan hátt og hafði algjörlega gleymt tilfinningunni. En minningin er þarna um leið og maður man. Það er líka svolítið fyndið að segja frá því að ég fann gamla dagbók. Dagbók sem "unga ég" hafði skrifað. Þar hafði ég skrifað þessa setningu “Ef ég get ekki málað get ég ekki andað”.
Get ekki andað!!!!!
Það er nú ekkert annað! Mér fannst svolítið skondið að sjá þetta. Ég hafði gleymt því að ég sjálf hafi búið yfir svona mikilli ástríðu til að skapa. Ég hafði bara alveg gleymt þessari stelpu sem gekk um með liti og blöð í töskunni sinni og pensil í hárinu og andaði að sér lífskraftinum með því að skapa. Stelpunni sem dreymdi um að sitja í erlendum listigörðum og mála. Hvernig gat ég gleymt henni? Á þessari stundu vaknaði eitthvað innra með mér sem hafði sofið og ég ætlaði ekki að leyfa því að sofna aftur.
Málað fyrir hjarta og sál
Til allrar hamingju tók ég aftur upp pensilinn. Í þetta skipti algjörlega á mínum forsendum. Ég fylltist aftur þvílíkum eldmóð. Ég fór að mála eins og vindurinn, eins og þegar ég var barn og unglingur. Keypti mér fullt af litlum skissubókum og pennum. Ég leyfði mér að sleppa takinu. Ég fór að mála eftir innsæinu. Mála til að mála. Mála fyrir ferlið í stað útkomunnar, mála eingöngu það sem mér fannst gaman í stað þess hvað öðrum gæti mögulega líkað. Málað fyrir mig og sálina mína. Mála til að heila mig og styrkja. Ég skipti úr olíu yfir í akríl og þar gat ég málað mikið hraðar og yfir myndir aftur og aftur bara til að mála. Mála með þekjulitum, mála eins og barn. Ég fann því aftur týnda gleði við það að mála en líka heilunarmáttinn. Ég veit ekki hvernig ég hefði komist í gegnum þetta tímabil veikinda, ótta og sorgar ef ég hefði ekki haft þetta verkfæri sem það er að mála og teikna. Það bjargaði mér algjörlega að geta tjáð það sem ég var að upplifa með litum, skrifum og penslum.
Í þessari vegferð kynntist ég því einnig að skapa með ásetningi eða „Intentional Creativity“. Ég lærði hjá Shilo Sophia sem kennir þessa aðferð og útskrifaðist með kennararéttindi í IC (intentional Creativity) 2016. Með IC sameina ég áhugann á persónulegum þroska og málun. Ég nota þessa aðferð til að tengjast sjálfri mér betur, setja mér markmið, minna mig á það sem ég vil fá út úr lífinu og umfram allt þá mála ég til að gleðja mig, takast á við streitu og kyrra hugann. Í náminu samdi ég frið við innri gagnrýnandann og það hafði í för með sér mikið frelsi. Gagnrýnandinn er oft á sveimi ennþá en ég kann betur að þagga niður í honum núna ef hann verður of hávær. Ég lít á hann í dag sem vin sem er að reyna að passa mig....bara aðeins of mikið. Hann er ekki lengur eineltisseggurinn sem hann var. Ég fór líka í yogakennaranám á þessu tímabili til að næra andann og sálina og það var ekki síður heilandi. Yoga, málun og áhugi á að blanda þessu öllu saman við meðferðarvinnu og á námskeiðum hefur átt hug minn síðan og var kveikjan að því að stofna Sálarlist.
Allir mega mála
Ég hafði um tíma þá hamlandi trú að það væri ekki fyrir alla að mála, bara þá sem hefðu alveg sérstaka hæfileika. Í dag geng ég út frá þeirri staðreynd að sköpunarkrafturinn býr í okkur öllum. Ég hef hitt svo marga sem hafa svipaða sögu og ég. Sem hættu að mála jafnvel vegna þess að þeim var sagt í barnaskóla að þau hefðu ekki “hæfileika”. Fólk sem finnst heillandi að setjast niður með liti en gerir það ekki. Fólk sem saknar þess að skapa.
Þess vegna bjó ég til Sálarlist. Það er draumur minn að helga mig því meðfram mínu starfi sem meðferðaraðili (og í meðferðarstarfinu fyrir þá sem hafa áhuga) að hjálpa fólki að vekja til lífsins sinn eigin sköpunarkraft með pensilinn á lofti og komast í dýpri tengsl við sjálfa sig, læra að vinna með sinn innri gagnrýnanda, uppgötva og vökva drauma sína, næra sálina og leysa úr viðjum kraftinn og styrkinn innra með sér. Ég kenni fólki að nota sálarlistina sem tæki til núvitundar iðkunnar og að iðka sköpun reglulega til að missa aldrei lífsneistan sem sköpunarkrafturinn er. Ég nota við kennsluna innsæismálun, Intentional Creativity/ásetningslistsköpun, yoga, ásamt öllu því sem ég hef lært í akademísku námi, úr starfi og af lífinu sjálfu.
Allir mega mála!
Það getur veitt ómælda gleði, hugarró og lífsfyllingu. Ég elska að leiða fólk inn í undraheima sköpunarkraftsins og að sinni innri visku og innsæi.
Það þarf ekki einu sinni að hafa haldið á pensli áður!
Með kærleikskveðju
Kristín Berta
Kristín Berta