Málaðu streituna burt!

Málaðu streituna burt!

Það hefur sýnt sig að einbeitingin og tilfinningatjáningin sem við upplifum í gegnum sköpunarferli vinnur gegn streitu og leiðir til meiri lífshamingju. Í rannsókn þar sem þátttakendur fengu það verkefni að skrifa í dagbók reglulega kom í ljós að dagbókarskrif hafa hvetjandi áhrif á fólk og persónulegan vöxt. Þá hefur enn fremur verið rannsakað að ef við getum gert sköpun að vana frekar en að bíða bara eftir að „andinn“ komi yfir okkur leiðir það til meiri afskasta í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur.  Sem sagt sköpun leiðir af sér meiri sköpun eins og ég hef alltaf sagt.

Það hefur verið þannig í mínu lífi að því meira sem ég skapa því meira skapandi er ég í alla staði. Eins og sköpunarkrafturinn sé óþrjótandi brunnur. Margir bíða hinsvegar eftir að sköpunarkrafturinn komi í einhversskonar bylgjum. Bíða eftir að listagyðjunni þóknist að koma með sinn innblástur. Þú gætir hinsvegar þurft að bíða ansi lengi ef þú hættir að skapa. Rannsóknir sína nefnilega fram á að iðkun viðheldur sköpunarkraftinum. Að við getum haldið dyrunum opnum fyrir listagyðjunni með iðkun! Þetta er algjörlega mín reynsla og það sem kennslan mín hjá sálarlist gengur helst út á. Búðu til sálarlist sem nærir andann og er fyrir ferlið en ekki útkomuna. Það ferli leiðir þig á alls konar brautir og leiðir til meiri sköpunnar á öllum sviðum lífsins.

Það sem er líka svo dásamlegt er að rannsóknir sýna að ferlið að skapa leiði til minnkandi streitu. En ekki bara það. Við erum líklegri til að vera skapandi  þegar við erum afslöppuð. Þetta er því einfalt dæmi!  Viltu vera meira skapandi? Byrjaðu þá að skapa, bara eitthvað hvað sem er. Ertu of stressuð til að skapa og gefur þér ekki tíma? Sköpun hefur jákvæð áhrif á streitt taugakerfi svo að.....byrjaðu að skapa...bara hvað sem er!

Sköpun krefst einbeitingar og á meðan við sköpum er ekki pláss til að vera upptekin af streituvekjandi hugsunum. Að þessu leiti má líkja saman sköpun og hugleiðslu þar sem við erum til dæmis að beina huganum að andardrættinum og frá hugarstorminum. Ég segi alltaf að sálarlistin sé mín hugleiðsla. Þar sem ég næ að hvíla mig frá áreiti heimsins (eða heimilisins...). Enda er talað um að hugleiðsluástand sé sama ástand og þegar við erum í skapandi flæði. Þeir sem stunda skapandi athafnir verða algjörlega helteknir af því sem þeir eru að gera á meðan. Þetta er það sem rannsóknir sýna að sé einn áhrifamáttur listmeðferðar til dæmis. Þetta velkomna frí í smástund frá andlegum eða líkamlegum veikindum.  Það að gera sköpun að vana er því eitthvað sem hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu. Auk þess er ágætt að hafa í huga að streita drepur niður sköpunarkraftinn.  Það helst því fallega í hendur að ef við viljum vera meira skapandi ættum við að streitustýra okkur betur og sem leið til að streitustýra okkur er upplagt að nota sköpunarkraftinn!

"Win Win" ekki satt?

Ég get ekki lýst því sjálf hversu jákvæð áhrif það hefur haft á líf mitt, lífsgleði og orku að skapa og kynnast mér í gegnum sálarlistina og ásetninginn. Að auka lífsfyllingu með jákvæðum nærandi sköpunarstundum.

Iðkun viðheldur sköpun og sköpun hefur jákvæð áhrif svo eftir hverju ertu að bíða?

 

Heimild:

https://reset.me/study/study-creativity-can-reduce-stress-and-become-a-habit/

Aftur á bloggið