Sálarlist er nafnið á þessu litla blómi mínu sem ég hef skapað fyrir mitt starf. Sálarlist nær yfir allt sem vekur með með mér ástríðu í þessu lífi bæði persónulega og í starfi. Draumana mína og draumana sem mig langar að vekja innra með öðrum líka. Sálarlist nafnið hefur vaxið með mér og ég verð alltaf ánægðari og ánægðari með þetta nafn:) Sálarlist er svo margt fyrir mér. Sálarlistin er listin sem við sköpum fyrir ferlið en ekki útkomuna. Listin að skapa fyrir hjartað og næra sálina með sköpunarkraftinum hvar sem hann birtist í lífinu. Að opna fyrir farveg sköpunnar sem er það sem allt lífið snýst um. Við erum sköpun. Við erum að skapa alla daga, hverja mínútu. Sköpunarkrafturinn tengir okkur við lífsorkuna og gleðina og undrið yfir því að sjá eitthvað verða til. Þar fáum við svalað lífsþorsta. Þá er ég ekki bara að tala um málningu og pensil þó ég noti það myndmál hér. Allt sem við gerum er sköpun. Ef við höldum þessum "kanal" sem sköpunarkrafturinn er opnum t.d. með listsköpun (garðvinna, matargerð, hvað sem er) erum við með eitthvað svo stórkostlegt opið. Beina tengingu inn í kjarnann okkar. Við getum komist nær okkur sjálfum og innsæinu okkar. Þegar við hlustum á það sem hjartað kallar á okkur að skapa, getum við færst nær okkur sjálfum. Heyrt í innsæinu, innri áttavita okkar.
"Að vakna til sjálfsins" kalla ég það stundum svo ég sé svolítið skáldleg svona í byrjun árs.
Sálarlist er líka fyrir mér listin að lifa! Við höfum val hverja mínútu um hvernig við bregðumst við. Við veljum ekki alltaf verkefnin okkar og það veit ég að þau geta verið svo hræðileg, óhugnarleg sár, ljót og erfið.
Við fáum þó í öllu þessu erfiða að vera "meðskaparar". Við fáum okkar hlutverk og að taka þátt með lífinu sjálfu í að skapa raunveruleika okkar. Þegar við uppgötvum hversu mikil áhrif við getum í rauninni haft á raunveruleika okkar þá öðlumst við persónulegt vald og með hverju skrefi sem við tökum í persónulegum þroska vex innri friðurinn. Þegar við lærum að þekkja tilfinningar okkar og vita hvaða tökkum þær kveikja á innra með okkur, getum við stýrt betur hugsunum okkar og hegðun. Þá erum við sjálf með pensilinn í hönd í eigin lífi.
Við getum skapað eitthvað í kringum klessurnar sem koma á strigann gegn okkar vilja. Við getum skapað meðvitund og skapað í meðvitund. Við getum lært að vera með því sem er...ekki bara því góða heldur líka því slæma. Þegar óvæntar málningarklessur koma á strigan sem við væntum ekki og vildum ekki...þá getum við lært að skapa frið innra með okkur með því að læra að sitja með lífinu nákvæmlega eins og það er. Streitast ekki á móti heldur taka á móti því sem er. Eins og það er. Án þess að reyna að stjórna.
Við förum að átta okkur á að einmitt þar er kyrrðin. Hún er djúpt innra með okkur en ekki fyrir utan okkur. Við getum lært að hlusta eftir henni. Jafnvel í háværasta lífs storminum og dýpsta sársaukanum getum við lært að skapa kyrrð innra með okkur.
Ég er svo heppin að á hverjum degi vinn ég með fólki sem er búið að ákveða að vera skaparar í eigin lífi. Þau koma á stofuna til mín eða á námskeið til mín og á hverjum degi sé ég þau ná tengingu við tilfinningarnar, áttavitann sinn. Ég sé þau stíga inn í sjálfa sig og taka sér sæti fyrir framan striga lífs síns og taka upp pensilinn og byrja að mála lífið sitt. Það er gjöf að verða vitni af því.
Megi árið verða þér farsælt
Megir þú öðlast styrk til að vera með því sem er
Megir þú finna kyrrð í dýpstu lægðinni
Megir þú opna hjarta þitt
Megir þú finna kjark til að vera þú
Megir þú finna ást til þín og dreifa til annarra
Megir þú eiga gleðilegt ár
-Kristín Berta Guðnadóttir-