Vaxtarverkir mínir á árinu 2021 - þægindaramminn og allt það

Vaxtarverkir mínir á árinu 2021 - þægindaramminn og allt það

Það er mér ávallt ofarlega í huga að ýta á sjálfa mig að taka skref út fyrir þægindaramman. Þannig finnst mér ég vaxa mest og reyna vængina mína. Ég er svo oft að hvetja aðra til þess sama og því ákvað ég á árinu 2021 að halda áfram að stíga út fyrir minn ramma og vera þannig fyrirmynd í því sem ég er að kenna öðrum.

Allt nýtt sem við gerum til að vaxa og vera sýnileg er oftast fyrir utan blessaða rammann. Það getur valdið innri skjálfta og hrisst okkur inn að beini að svo mikið sem stíga tánni út fyrir þægindin. Það kveikir svo um munar á rödd innri gagnrýnandans. Þess vegna hættum við svo oft við. Eltum ekki draumana því það getur verið ýmislegt óþægilegt sem þarf að gera til að framkvæma þá. Innri gagnrýnandinn getur verið svo óvæginn. En því oftar sem við æfum þetta áttum við okkur á að þetta eru bara vaxtarverkir!

Ramminn okkar er mis stór. Fyrir suma er það risavaxið að birta færslu á facebook eða mynd af sjálfum sér eða  tala við ókunnuga í boði. Aðrir geta verið að glíma við vaxtarverki þegar þeir hugsa um að stofna fyrirtæki, halda listasýningu, stíga á svið eða gefa út lagið sitt.

Með því að stofna Sálarlist og koma listinni minni lengra, hef ég stigið mörg skref út fyrir ramman. Halda námskeið, auglýsa verkin mín, auglýsa námskeið, búa til heimasíðu. Allt þetta snýst um að segja við heiminn "Hæ hér er ég ...og ég er að gera þetta" og það hrisstir mig alltaf inn í kjarnann, vekur upp innri gagnrýnandann svo um munar. Það er alltaf þessi ótti sem fylgir því að beina athyglinni að sjálfum sér. "Hvað ef enginn kemur, kaupir, líkar við...og svo framvegis". En ég hef lært að það er engin leið framhjá óttanum. Hann kemur sama hvað og því hef ég lært að framkvæma með óttann bara tuðandi í aftursætinu. Ég er í bílstjóra sætinu. 

Mér finnst ekki erfitt að halda fyrirlestra eða kenna í Háskólanum (mér fannst það auðvitað fyrst) en það sem ég gerði á árinu var persónulegra. Ég kom fram sem "Kristín Berta" og "Kristín Berta listakona" en ekki bara "Kristín Berta fagaðili eða kennari". 

Hver kannast ekki við að gera eitthvað nýtt, koma sér á framfæri, kynnast nýju fólki og fara að hugsa um alls konar flækjur? Ritskoða hvað maður sagði og hrissta hausinn yfir að hafa sagt þetta en ekki hitt?

Það gerðist svo sannarlega hjá mér eftir þetta viðtal við mig á rás 1. Eftir viðtalið fór minn innri gagnrýnandi á svolítið flug. "þú gleymdir þessu, afhverju talaðir þú svona mikið um þetta"...og svo framvegis. En ég veit hvernig hann virkar blessaður og því  sótti ég mér stuðning hjá samferðarfólki og lét hann ekki stoppa mig. Hann var sendur í "garðinn" sinn á meðan þessir vaxtarverkir gengu yfir. 

Mér fannst líka svolítið óþægilegt þegar þessi umfjöllun birtist um mig sem listakonu. En það var ekki næstum eins óþægilegt eins og persónulega útvarpsviðtalið hér að ofan og ég fann að sú óþæginda tilfinning gekk fljótt yfir. Enda hef ég unnið mjög markvisst í innri listgagnrýnandanum og kenni öðrum að sleppa tökunum á honum. 

Ég hafði lengi gengið með í maganum að taka viðtal við pabba minn um sköpunarkraftinn og bókina hans Mömmustrák  sem ég myndskreytti á árinu og hann gaf út í endurútgáfu í maí 2021. Ég hugsaði um margt sem var til þess fallið að stoppa mig. 

"Hvar ætlar þú að taka viðtal  við hann? Þú ert ekki með neitt podcast?"

"Þetta er asnaleg hugmynd, það nennir enginn að horfa á ykkur tala saman"

"Hvað ef þú verður asnaleg?"

"Hvað ef enginn nennir að horfa?"

Slíkar hugsanir koma alltaf! Það er eðli hugans að reyna að vernda okkur. Passa að við gerum okkur ekki að fífli. Ef við ætlum að hlusta á þessa rödd þá gerum við aldrei neitt nýtt. Hugurinn vill það ekki. Hann vill halda okkur á því svæði sem við þekkjum. Það er öruggast. Mótrökin við þessum hugsunum hér að ofan voru þessi:

"þetta er eitthvað sem mig langar að  gera"

"Þetta  verður ótrúlega dýrmætt fyrir börnin mín að geta horft á síðar"

"skítt með það þó enginn nenni að horfa....það verður alltaf einhver úr klappliðinu okkar pabba sem horfir og við gerum þetta fyrir vini okkar og fjölskyldu, það eru þau sem skipta mestu máli"

Þegar þessi ótti birtist hjá mér hugsa ég oft um það að sleppa því sem er óþægilegt. En ég spóla þá fram í tímann í huganum og skoða hvaða tilfinning myndi fylgja því að reyna ekki, að sleppa.  Ef þetta  er ekki mikilvægt er það ekkert mál. En ef þetta er mér mikilvægt er óttinn við að reyna og mistakast yfirsterkari óttanum við að reyna aldrei. Það nota ég svo sem drifkraftinn minn. Ég stend og fell með mér og get þá alltaf sagt:

"Ég reyndi þó"

-Kristín Berta Guðnadóttir-

 

 

Aftur á bloggið